Frá aðalfundi FEBÖ 20. feb. 2016

Ásberg flytur skýrslu stjórnar. Það var mjög góð mæting á aðalfund Félags eldri borgara í Ölfusi að Egilsbraut 9, laugardaginn 20. febrúar 2016. Ásberg Lárentsínusson formaður setti fundinn og bauð fundarmenn velkomna og var að vonum ánægður með góða mætingu. Hann bað fólk um að rísa á fætur og minnast látinna félaga. Hann skipaði Önnu Lúthersdóttur fundarstjóra með samþykki fundarmanna. Guðfinna Karlsdóttir ritari las upp fundargerð síðasta aðalfundar sem var samþykkt. Ásberg las skýrslu stjórnar, þar fór hann m.a. yfir félagstarfið hjá FEBÖ sem er með eindæmum gott, nefndi að hann og Bjarni Valdimarsson hefðu sótt landsþing LEB sem var hið ágætasta þing. Hann sagði einnig frá áhugaverðu þingi sem bar yfirskriftina Framtíðarþing um farsæla öldrun. Þingið var haldið á Selfossi 16. nóvember síðastliðinn. Tekin var saman skýrsla um þingið en hana má finna á heimasíðunni undir flipanum Farsæl öldrun. Á þinginu varð til þessi vísa: Farsæl öldrun er okkar fagfylkjum saman liði í dag.Gerum öllum öðrum gottendum síðan lífið flott. Ásberg greindi frá hverjir skipuðu öldungaráð Sveitarfélagsins Ölfuss en það eru: Ásberg Lárentsínusson, Guðfinna Karlsdóttir frá FEBÖ og frá sveitarfélaginu þeir Guðmundur Oddgeirsson, sem er formaður ráðsins, og Guðni Pétursson. Haldnir voru þrír félagsfundir á árinu. Skemmtanalífið var með miklum blóma þó engin árshátíð hafi verið haldin í þetta sinn. Karlarnir í félaginu héldu karlakvöld sem þeir nefna kótelettuna, nafnið er sennilega dregið af því hvað er á boðstólnum þetta kvöld. Þá var haldinn jólabasar, litlujólin voru á sínum stað og þorrablótið sem alltaf er mjög vel sótt. Jóna Sigurðardóttir fór yfir reikninga félagsins sem voru samþykktir. Jóna útskýrir ársreikninga. Árgjald félagsins verður áfram 2.500 krónur og afsláttarbókin síðan í fyrra er enn í gildi. Stjórnin lagið til að fjölgað yrði um tvo í stjórn og tillaga var borin upp um að það yrðu þeir Hjörtur B. Jónsson og Ingvi Þorkelsson. Stjórnin fyrir næsta ár lítur þá svona út: Ásberg Lárentsínusson formaður, Hjörtur B. Jónsson varaformaður, Jóna Sigurðardóttir gjaldkeri, Guðfinna Karlsdóttir ritari, Danielína Jóna Bjarnadóttir, Bjarni Valdimarsson og Ingvi Þorkelsson. FEBÖ efndi til tveggja ferða á árinu, önnur ferðin var farin á Unaðsdaga í Stykkishólmi og hin var dagsferð um Reykjanesið sem var sannkölluð ævintýraferð. Á þessu ári (2016) verður farið til Færeyja en sú ferð er löngu uppseld. Hin árlega dagsferð verður farin til Vestmannaeyja þann 14. júní. Ásberg lauk aðalfundi með hugleiðingum um kjör aldraðra sem er efni í annan pistil. Það má með sanni segja að í Félagi eldri borgarar í Ölfusi sé blómlegt og skemmtilegt starf, þar sem flestir ef ekki allir geta fundið eitthvað við sitt hæfi. 

Þorrablót 2016

Það var glatt á hjalla á þorrablóti Félags eldri borgara í Ölfusi og Níunnar á bóndag 22. janúar síðastliðinn. Salurinn á Níunni var fullur af prúðbúnu fólki. Borð svignuðu undan þorramat frá Kjarnafæði en um matinn sáu þær stöllur Beata og Sigga sem vinna í mötuneyti Níunnar. Sönghefti voru á borðum með þorrasöngvum sem sungið var upp úr á milli atriða. Ester Hjartardóttir lék á píanó undir sönginn. Gunnsteinn Ómarsson bæjarstjóri kom að venju beint af þorrablóti Leikskólans Bergheima á þorrablót eldri borgara. Hann veit að það þarf að leggja sérstaklega góða og mikla rækt við þessa hópa sveitarfélagsins. Hann kom færandi hendi - rétti forstöðumanninum Sigrúnu Theódórsdóttur flösku af íslensku brennivíni sem hún skenkti í staup og bar á borð. Sigrún stjórnaði söngvakeppni sem hún kallaði „Ísland got Talent.“ Hún fólst í því að keppendur áttu að þekkja lag sem hún byrjaði á að syngja og taka við þar sem hún hætti. Keppendur voru Gunnsteinn bæjarstjóri og Kristín Þorvarðardóttir starfsstúlka á Níunni. Gunnsteinn bar sigur af hólmi og uppskar mikil fagnaðalæti. Halla Kjartansdóttir flutti frumsamda Vertíðardrápu í gamansömum tón. Drápan fjallaði um lífið í þorpinu þegar allt snérist um fiskinn, hörkutólin sem unnu myrkranna á milli við að byggja upp samfélagið og skemmtu sér þess á milli. Þetta var vellukkað þorrablót í alla staði.