Hátíðarhattar, útigrill, stólajóga og leirgerð í boði á 9-unni í vetrarlok

MaíÞá fer vetrastarfið á 9-unni að renna sitt skeið en þó er kannski hápunkturinn eftir, Hafnardagar og skemmtilegheitin í kringum þessa ágætu bæjarhátíð okkar. Þæfðir hattar fyrir Hafnardaga. Í fyrra litu í fyrsta sinn bæjarhátíðarhattarnir dagsins ljós og vöktu mikla athygli og ánægju. Konur í Félagi eldri borgarra hafa ekki setið auðum höndum að undanförnu og hefur þeim tekist að töfra fram ótrúlegt úrval höfuðfata. Í fyrra töluðu karlar um að ekki hefði verið hugað að þeirra þörfum í hattaframleiðslunni en nú var bætt úr því og í boði eru að þessu sinni ekki aðeins kvenhöfuðföt heldur líka höfuðföt fyrir bæði karla og krakka. Það er um að gera að líta við á Níunni og velja sér hátíðarhatt. Þeir kosta frá 2000 til 3500 krónur stykki eftir stærð og gerð og það er alltaf hægt að fá sér hatt þegar 9-an er opin. En það verður fleira um að vera en hattasala á 9-unni. Fimmtudaginn 4. júní verður útigrill frá klukkan 18 til 20. Fólk kemur þá með eitthvað gott fyrir sig að borða og verður það grillað á frábæru kolagrilli. Rétt er að hafa það einnig meðferðis eitthvert meðlæti og drykkjarföng eftir ósk hvers og eins. Frá klukkan 20 til 23 verður síðan stiginn dans við harmoníkuundirleik . Skemmtileg byrjun á bæjarhátíð fyrir eldri borgarana sem koma á þessa grillhátíð 9-unnar. Áður en júnímánuður gengur í garð má minna á að enn eru eftir fjórir stólajógatímar. Þeir eru föstudagana 8., 15., 22., og 29. maí og hefjast klukkan 9.45. Þessi hani bíður eftir að fara út í garð í sumar. Og ekki er allt búið enn. Það gefst tækifæri til að búa sér til fáeina sumarlega hluti úr leir áður en vetrarstarfinu lýkur. Frjálsir tímar í leirgerðinni verða 13., 20., og 27. maí. Til er töluvert af leir á 9-unni og fólk getur komið og keypt sér kíló af leir fyrir 500 krónur, unnið úr leirnum eins og hver og einn vill og svo verða hlutirnir glerjaðir og brenndir. Þetta eru eins og áður sagði frjálsir tímar og ekki verða sérstakir leiðbeinendur á staðnum en þeir sem hafa verið í leir áður kunna áreiðanlega til verka og geta leiðbeint þeim sem minna kunna. Fyrsti dagurinn verður notaður í sköpun og síðan verður leirinn þurrkaður og brenndur og loks glerjaður. Þessir frjálsu leirtímar verða frá klukkan 13 til 15. Grípið tækifærið og búið nú til það sem þið höfðuð ekki komist til að gera áður. Svo er rétt að minna fólk á að það er alltaf hægt að líta við á 9-unni. Þangað koma ýmsir og grípa í spil, prjónakonurnar geta tekið með sér prjónana og fengið sér kaffisopa og smáspjall eða þið getið bara komið til að spjalla við þá sem þarna kunna að vera staddir í það og það skiptið.