Heimsókn á Níuna — upplyfting fyrir líkama og sál

MarsÍ gryfjunni á 9-unni fara námskeiðin fram. Þriðji starfsmánuður á árinu er hafinn á Níunni með föstum liðum eins og venjulega. Félagsvistin er spiluð á fullu og í hverri viku streymir fólk á Níuna til að spila brids, taka þátt í karlarabbinu og starfi leshópsins sem og iðka keramiklistmunagerð og aðra handavinnu. Aldrei dauð stund þar. En það er ekki bara sálin sem hressist við komuna á Níuna heldur má líka þjálfa líkamann. Hægt er að fara á göngubretti, hjóla og stinga höndunum í vaxpottinn og láta þreytu og verki líða úr fingrunum. Munið að nýta ykkur allt þetta. Svo má ekki gleyma að koma og fá sér kaffi og jafnvel köku með síðdegis, tylla sér og tala við vini og kunningja eða kíkja í blöðin. Loks er það hinn heimalagaði Níumatur sem nýtur mikilla vinsælda. Hvers vegna ekki að boða komu sína og prófa hvernig hann smakkast, en munið að láta vita daginn áður að ykkar sé von. Níufólkið hlakkar til að sjá ykkur sem fyrst og oftast og það má fullyrða að sjálf munið þið njóta heimsóknarinnar. fb    

Unaðsdagar í Hólminum og ný stjórn FEBÖ

MarsAðalfundur Félags eldri borgara í Ölfusi var haldinn í febrúar og var vel sóttur. Meðal mála var að sjálfsögðu kjör stjórnar og einnig var sagt frá sumarferð félagsins sem lofar góðu en ferðalangar munu bregða sér á Unaðsdaga í Hólminum og dveljast þar frá mánudegi til föstudags síðast í apríl. Jóna gjaldkeri, Ásberg formaður og Guðfinna ritari. Sú breyting varð á í kjölfar samþykktar nýrrar lagagreinar að nú skipa aðeins fimm menn stjórnina í stað sjö áður. Þessi breyting var gerð af tveimur ástæðum, í fyrsta lagi vegna þess að talið er að fimm manna stjórn muni fyllilega geta sinnt þeim verkefnum sem fyrir liggja hverju sinni og einnig vegna þess að ekki hefur alltaf gengið of vel að fá menn til stjórnarstarfa. Úr stjórn gegnu þær Anna Lúthersdóttir formaður, Brynja Herbertsdóttir og Fríða Björnsdóttir. Anna hefur verið formaður síðustu fjögur ár og Brynja setið í stjórn í átta ár að minnsta kosti svo notuð séu hennar eigin orð. Nýr formaður var kjörinn Ásberg Lárentsínusson og aðrir í stjórn Guðfinna Karlsdóttir ritari, Jóna Sigurðardóttir gjaldkeri og meðstjórnendur Bjarni Valdimarsson og Danielína Jóna Bjarnadóttir. Ásberg færði fráfarandi stjórnarkonum blóm í þakklætisskyni fyrir vel unnin störf. Sumarferð FEBÖ verður farin 27. apríl og komið heim 1. maí. Ákveðið var að njóta nú Unaðsdaga í Stykkishólmi. Gist verður á Hótel Stykkishólmi en boðið er upp á mikla skemmtun alla dagana sem þar verður dvalist. Ferðin mun kosta 40 þúsund krónur á mann sem er gjafverð ekki síst þegar tillit er tekið til þess að matur er að mestu leyti innifalinn í verðinu og á hverju kvöldi verður hægt að njóta skemmtilegheita ýmiss konar. Fólk er beðið að skrá sig í ferðina hið fyrsta svo hægt sé að staðfesta fjölda þeirra sem taka þátt í henni. Á móti pöntunum taka og gefa nánari upplýsingar þau Ásberg í síma 896 3117, Ingibjörg í síma 897 2931 og Trausti í síma 846 763. fb