Ný fjögurra kvölda félagsvist að hefjast á Níunni

FebrúarHluti af leshópnum. Gaman er að segja frá því að hið árlega Þorrablót sem haldið var á Níunni á bóndadaginn var með eindæmum vel lukkað. Gestir voru hátt í sextíu talsins og skemmtu allir sér frábærlega vel og þorramaturinn reyndist hinn besti. Leshópurinn fór á kostum og fékk fólk til að kveðast á eins og gert var hér áður og fyrr. Þá lék Ester Hjartardóttir á píanó undir fjöldasöng og sungu gestir af miklum krafti. Kvöldið var sem sagt mjög vel heppnað í alla staði og fólk strax farið að hlakka til næsta þorrablótsins að ári. Félagsvistin hefur gengið vel fyrir sig og næsta fjögurra kvölda syrpa hefst 23. febrúar næstkomandi. Hvað ertu með á hendinni? Rétt er að taka fram að aðalfundur FEBÖ verður klukkan 14, laugardaginn 21. febrúar. Nú er heill mánuður liðinn síðan farið var að elda matinn á Níunni fyrir þá sem þar borða. Er fólk mjög ánægt með þetta fyrirkomulag og þennan heimatilbúna mat. Eins og áður getur fólk komið og borðað reglulega á Níunni eða boðað komu sína með dagsfyrirvara, langi það til að prófa matinn og lyfta sér upp með því að kíkja þangað og snæða með öðrum matargestum. Aðsókn hefur verið góð allt frá tíu upp í tuttugu og fimm manns. Einu breytingarnar sem orðið hafa á stundatöflu Níunnar eru að tiffaný námskeiðin eru nú bæði á miðvikudögum klukkan 9 og 13 og þátttaka er góð. fb  

Dagdvölin tók þátt í gjafasendingum til útlanda

JanúarSigríður Guðmundsdóttir var afkastamikil í prjónaskapnum. Fólkið á dagdvölinni á Níunni hafði töluvert fyrir stafni fyrir jólin þar sem ákveðið var að taka skyldi þátt í verkefninu Jól í skókassa. Var þetta í annað sinn sem það er gert. Margvíslegt dót fór í kassana, handverk sem fólkið hafði unnið sjálft eða aðrir komið með og lagt af mörkum. Má þar nefna húfur, vettlinga og ýmislegt annað auk þess sem í kassana fóru t.d. tannkrem, tannburstar og fleira gagnlegt. Farið var með kassana á Selfoss, í kirkjuna þar, og þeir fóru með öðrum kössum sem fóru til barna í Úkraínu en þetta verkefni er á vegum KFUM. Þá sendi Rauði krossinn frá sér óskir um hlýjan fatnað og teppi og annað sem gæti komið sér vel hjá fólki í Úkraínu þar sem vetur eru kaldir og fólk býr margt hvert við lélegan húsakost og fátækt. Dagdvölin sendi í þetta verkefni stóran poka fullan af teppum, tíu talsins, sem Sigga prjónakona, Sigríður Guðmundsdóttir hafði unnið að mestu. Sigga prjónar búta í ýmsum litum og síðan eru þeir heklaðir saman á skemmtilegan hátt svo úr verða frábærlega falleg og notaleg teppi bæði fyrir börn og fullorðna. Þetta er í fyrsta skipti sem Dagdvölin tekur þátt í sambærilegu verkefni. fb