Ungur nemur – gamall temur

Sláturgerð á Níunni Fimmudaginn 17. október var nemendum 9. bekkjar í heimilisfræðivali í Grunnskólanum í Þorlákshöfn boðið að koma á Níuna (Egilsbraut 9) og gera slátur með starfsmönnum, eldri borgurum í dagdvöl og þeim sem nýta sér þjónustu mötuneytisins. Nemendur þáðu boðið með þökkum og skunduðu á fund eldri borgara og starfsfólks Níunnar ásamt Berglindi Ósk Haraldsdóttur stuðningsfulltrúa. Sumir þeirra voru vanir sláturgerð og kunnu til verka en aðrir aldeilis óvanir að skera mör, hakka lifur og nýru, sníða vambir og sauma, hræra í blóði og þela upp en allri fundu sér verk að vinna. Krakkarnir komu á Níuna snemma morguns og voru fram að hádegi. Það var nóg að gera enda tekin 13 slátur sem verða á boðstólum mánaðarlega yfir vetrarmánuðina. Í hádeginu í dag var öllum 9. bekkingum, ásamt Önnu Júlíusdóttur og Láru Hrund Bjargardóttur kennurum, boðið að smakka herlegheitin, auk allra sem komu að sláturgerðinni. Eftir því sem best verður komist þótti öllum þessi samvera skemmtileg og gefandi. „Þetta er komið til að vera" svo vitnað sé í Sigrúnu Theódórsdóttur forstöðumann Níunnar og Ólínu Þorleifsdóttur aðstoðarskólastjóra.   ÝTIÐ HÉR til að sjá fleiri myndir.

Ásberg í framboð

Ásberg Lárenzínusson formaður FEBÖ lætur ekki deigan síga. Hann er á framboðslista hjá Flokki fólksins fyrir alþingiskosningarnar í 20. október nk. fyrir Suðurkjördæmið. Hann skipar 20. sæti listans. Ásberg hefur alla tíð tekið virkan þátt í félagsmálum, stjórnmálum og hinu blómlega menningarlífi Þorlákshafnar. Hann hlaut menningarverðlaun Ölfuss 2016 enda barðist hann fyrir því að stofnaður yrði tónlistarskóli í Þorlákshöfn og var aðalhvatamaður að stofnun Lúðrasveitar Þorlákshafnar. Hann hefur sungið í flestum kórum sem starfað hafa í Þorlákshöfn og oft og tíðum sungið einsöng. Ásberg var einnig einn af þeim sem fengu Bjarna Jónsson listamann til að gera minnisvaða um drukknaða og horfna sem stendur fyrir framan Þorlákskirkju.

Vetrardagskrá fyrir haustönn 2016

Vetrardagskrá Félags eldri borgara í Ölfusi var kynnt á félagsfundi 1. sept. Dagskráin er fjölbreytt að venju með sínu hefðbundna sniði: Leshópur, karlarabb, spiladagur, keramikmálun, tiffany, kortagerð, púkkvinna, boccia og ringó. Á stundatöfluna hefur bæst við meiri hreyfing frá því á vorönn. Hollvinafélagið Höfn ætlar að bjóða félagsmönnum að stunda leikfimi í Íþróttamiðstöðinni á mánudögum kl. 10. 20 og á 9-unni á miðvikudögum kl. 10.00 undir leiðsögn Hildigunnar sjúkraþjálfara. Ester verður með vatnsleikfimi á þriðjudögum kl. 16.30 og á fimmtudögum kl. 12.00. Af þessu má sjá að flestir, ef ekki allir, geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Stundatafla á haustönn 2016

tonarogtrix

Vortóneikar Tóna og Trix

Það var létt og skemmtileg stemmning á tónleikum sönghópsins Tóna og Trix í Ráðhúsi Ölfuss á fimmtudagkvöld 2. júní. Salurinn var troðfullur af fólki. Hljómsveitin sem spilaði undir sönginn var ekki af verri endanum. Yngstu meðlimir sveitarinnar voru þeir Jakob Unnar Sigurðarson sem spilaði á bassa og Þröstur Ægir Þorsteinsson á trommur. Þeir eru nemendur í Grunnskólanum í Þorlákshöfn og eru að útskrifast úr níunda bekk. Þrátt fyrir ungan aldur hafa þeir verið ötulir í tónlistarlífinu hér í Þorlákshöfn jafnframt því að stunda nám við Tónlistarskóla Árnesinga. Hinir meðlimir bandsins voru þeir Davíð Ó. Davíðsson sem spilaði á gítar og Tómas Jónsson á píanó. Davíð er meðlimur í Tónum og Trix en rifjaði upp gítargripin sem hann lærði á sínum yngri árum fyrir tónleikana. Hann lét ekki þar við sitja heldur keypti sér splunkunýjan rafmagnsgítar og vígði hann við þetta tilefni. Tómas er frábær píanóleikari og er að gefa út sína fyrsti sólóplötu um þessar mundir. Hann er sambýlismaður Ásu Berglindar Hjálmarsdóttur stjórnanda sönghópsins. Sönghópurinn Tónar og Trix var stofnaður af Ásu Berglindi fyrir níu árum. Samband hennar við sönghópinn er afar náið og skemmtilegt. Samstarfið einkennist af gagnkvæmri virðingu og væntumþykju. Í söngnum skein gleðin úr hverju andliti og smitar út til áheyrenda sem geta ekki annað en hreyft sig í takt við tónlistina og brosað út að eyrum.  Fyrsta lag á tónleikunum var Haust eftir Erlu Markúsdóttur sem samdi einnig textann og syngur með sönghópnum. Lagavalið var að vanda létt og skemmtilegt og hljómsveitin puntaði svo sannarlega upp á, enda frábær. Tómas er næmur á sönghópinn, styður vel við hann og er góður hljómsveitarstjóri. Eftir hlé gekk sönghópurinn hummandi inn í salinn við undirleik hljómsveitarinnar. Þegar hópurinn hafði komið sér fyrir á sviðinu hóf bassinn Ásberg Lárenziusarson upp raust sín. Hann söng einsöng í laginu Leiðin okkar allra eftir Þorstein Einarsson við  hinn undurfagra texta Einars Georgs Einarssonar. Ása Berglind þakkaði stolt hvunndagshetjunni Ásbergi, eins og hún kallaði hann, fyrir sönginn. Hún sagði að hann væri aldeiis búinn að leggja sitt af mörkum til tónlistarlífsins hér í Þorlákshöfn. Hann stofnaði Lúðrasveit Þorlákshafnar. Nú syngur hann í þremur kórum í Þorlákshöfn. Áheyrendur tóku undur þessi orð, Ásu Berglindar, með miklu lófataki. Sönghópurinn var klappaður upp og söng aukalega syrpu af sjómannalögum í tilefni af sjómannadeginum 5. júní. Að lokum auglýsti Ása Berglind eftir söngfólki í kórinn en aldurtakmarið er 60 ára. Tónleikagestir héldu syngjandi og glaðir út í vornóttina. -Ýtið hér til að sjá fleiri myndir-

Dagur aldraðra

Það var falleg og notaleg helgistund á sal Níunnar á uppstigningardag – á degi aldraðra. Salurinn var þéttskipaður fólki sem hlýddi á fallegan söng Yngri barnakórs Grunnskólans í Þorlákshöfn undir stjórn Sigþrúðar Harðardóttur og Gests Áskelssonar sem spilaði jafnframt undir sönginn. Séra Baldur Kristjánsson leiddi helgistundina og Guðmundur S. Brynjólfsson djákni predikaði. Uppstigningardagur var gerður að alþjóðlegum degi eldri borgara fyrir u.þ.b. tveimur áratugum síðan. Prestur og djákni undirstrikuðu það, hvor á sinn hátt, að dagurinn í dag væri áminning um að treysta því sem í fljótu bragði virðist ekki geta staðist – upprisa Jesú Krists. -Ýtið hér til að sjá fleiri myndir-

Bocciamót

Nokkrir áhugasamir úr Félagi eldri borgara í Ölfusi hafa stundað Boccia af kappi í Íþróttamiðstöðunni í vetur. Ásberg Lárenzinusson var

Read More →


Frá aðalfundi FEBÖ 20. feb. 2016

Ásberg flytur skýrslu stjórnar. Það var mjög góð mæting á aðalfund Félags eldri borgara í Ölfusi að Egilsbraut 9, laugardaginn 20. febrúar 2016. Ásberg Lárentsínusson formaður setti fundinn og bauð fundarmenn velkomna og var að vonum ánægður með góða mætingu. Hann bað fólk um að rísa á fætur og minnast látinna félaga. Hann skipaði Önnu Lúthersdóttur fundarstjóra með samþykki fundarmanna. Guðfinna Karlsdóttir ritari las upp fundargerð síðasta aðalfundar sem var samþykkt. Ásberg las skýrslu stjórnar, þar fór hann m.a. yfir félagstarfið hjá FEBÖ sem er með eindæmum gott, nefndi að hann og Bjarni Valdimarsson hefðu sótt landsþing LEB sem var hið ágætasta þing. Hann sagði einnig frá áhugaverðu þingi sem bar yfirskriftina Framtíðarþing um farsæla öldrun. Þingið var haldið á Selfossi 16. nóvember síðastliðinn. Tekin var saman skýrsla um þingið en hana má finna á heimasíðunni undir flipanum Farsæl öldrun. Á þinginu varð til þessi vísa: Farsæl öldrun er okkar fagfylkjum saman liði í dag.Gerum öllum öðrum gottendum síðan lífið flott. Ásberg greindi frá hverjir skipuðu öldungaráð Sveitarfélagsins Ölfuss en það eru: Ásberg Lárentsínusson, Guðfinna Karlsdóttir frá FEBÖ og frá sveitarfélaginu þeir Guðmundur Oddgeirsson, sem er formaður ráðsins, og Guðni Pétursson. Haldnir voru þrír félagsfundir á árinu. Skemmtanalífið var með miklum blóma þó engin árshátíð hafi verið haldin í þetta sinn. Karlarnir í félaginu héldu karlakvöld sem þeir nefna kótelettuna, nafnið er sennilega dregið af því hvað er á boðstólnum þetta kvöld. Þá var haldinn jólabasar, litlujólin voru á sínum stað og þorrablótið sem alltaf er mjög vel sótt. Jóna Sigurðardóttir fór yfir reikninga félagsins sem voru samþykktir. Jóna útskýrir ársreikninga. Árgjald félagsins verður áfram 2.500 krónur og afsláttarbókin síðan í fyrra er enn í gildi. Stjórnin lagið til að fjölgað yrði um tvo í stjórn og tillaga var borin upp um að það yrðu þeir Hjörtur B. Jónsson og Ingvi Þorkelsson. Stjórnin fyrir næsta ár lítur þá svona út: Ásberg Lárentsínusson formaður, Hjörtur B. Jónsson varaformaður, Jóna Sigurðardóttir gjaldkeri, Guðfinna Karlsdóttir ritari, Danielína Jóna Bjarnadóttir, Bjarni Valdimarsson og Ingvi Þorkelsson. FEBÖ efndi til tveggja ferða á árinu, önnur ferðin var farin á Unaðsdaga í Stykkishólmi og hin var dagsferð um Reykjanesið sem var sannkölluð ævintýraferð. Á þessu ári (2016) verður farið til Færeyja en sú ferð er löngu uppseld. Hin árlega dagsferð verður farin til Vestmannaeyja þann 14. júní. Ásberg lauk aðalfundi með hugleiðingum um kjör aldraðra sem er efni í annan pistil. Það má með sanni segja að í Félagi eldri borgarar í Ölfusi sé blómlegt og skemmtilegt starf, þar sem flestir ef ekki allir geta fundið eitthvað við sitt hæfi.