Sláturgerð

Sláturgerð Þau komu trítlandi yfir á Níuna, nemendur 9. bekkjar úr Grunnskólanum í Þorlákshöfn, mánudag 16. okt. Krakkarnir voru eftirvæntingafullir, því til stóð að búa til 13 slátur með starfsfólki Níunnar og fleirum. Allt gekk þetta eins og í sögu og krakkarnir voru fljót að læra handtökin. Sumir tóku það að sér að smakka soppuna (blóð, mör og mjöl), hvort á vantaði salt eða eitthvað annað krydd. Soppunni var síðan troðið í vampirnar og þeim lokað með saumakap. Krakkarnir voru ljúf sem lömb og ánægð með afraksturinn og starfsfólk Níunnar sérlega ánægt með hjálpina. Það er skemmtilegt að krakkarnir fái að kynnast hefðbundnum íslenskum haustmat, því það er ekki eins algengt og áður fyrr að fjölskyldur taki slátur. Ungur nemur - gamall temur.  Hér eru myndir frá vinnunni.

Vetrardagskrá haustið 2017 á Níunni

Vetrardagskrá Níunnar er komin á fullt skrið. Stundatöfluna er hægt að nálgast hér. Ný spilalota hófst 2. október og eru spiluð fjögur kvöld í lotu en úrslitin eru reiknuð út frá þremur kvöldum, þannig að það kemur ekki að sök ef eitt kvöld dettur út. Hildigunnur heldur áfram með leikfimina tvisvar í viku, boccia er á sínum stað í Íþróttarmiðstöðinni, handavinnukaffi á þriðjudögum, tréskurður og tiffaný á miðvikudögum, spiladagar á þriðjudögum og fimmtudögum, leshópur á mánudögum, karlarabb á miðvikudögum og tréskurður á fimmtudögum. Guðmundur djákni les framhaldssögu á fimmtudögum og Ester mun stýra söngstund út nóvembermánuð. Allir þeir sem hafa ánægju af söng ættu að koma og syngja með. Sr. Baldur og Guðmundur djákni verða með samverustund einu sinni í mánuði fram að jólum; föstudagana 6. okt. , 3. nóv., og 1. des. Konukvöld verður 2. nóv., karla-kótilettukvöld 17. nóv. og litlu-jólin 1. des. Ester er með sundleikfimi í hádeginu á þriðjud. og fimmtud. og byrjar tíminn kl. 12. Eldriborgarar og öryrkjar fá frítt í sund og 40% afslátt í tækjasal. Það ættu allir að finna eitthvað við sitt hæfi á Níunni. Það má líka geta þess að þar er alltaf heitt á könnunni og gott næði til að lesa dagblöðin. Allar nánari upplýsingar í síma 483-3614.

Vorferð, Landsmót 50+ og Hafnardagar

Vorferð FEBÖ var farin að þessu sinni til Siglufjarðar og dvalið á hótel Sigló í tvær nætur. Gunnar Birgisson bæjarstjóri í Fjallabyggð var leiðsögumaður okkar og ók með okkur um Siglufjörð og Ólafsfjörð og sagði okkur frá bæjunum. Við skoðuðum Þjóðlagasetrið, Síldarminjasafnið og bjórverksmiðju. Við vorum heppin með veður eins og reyndar alltaf í ferðunum okkar í gegnum árin. Siglfirðingar tóku vel á móti okkur og allt gekk vel og allir ánægðir. Dagsferð félagsins er í undirbúningi og verður auglýst síðar. Landsmót 50+ verður haldið í Hveragerði í júní og Boccia liðið okkar æfir nú stíft fyrir mótið. Æfingar eru í Íþróttahúsi á þriðjudögum kl. 9.30 ef einhver vill bætast í hópinn, einnig verður keppt í mörgum öðrum greinum s.s. pönnukökubakstri, stígvélakasti, golfi og fl. ef fólk langar að vera með. Grill og harmonikkuball verður á 9-unni á Hafnardögum. Nánar auglýst síðar. G.K.

Alltaf heitt á könnunni á 9-unni

Þá er sumarið komið til okkar og vonandi verður það sólríkt og gott. Hér á 9-unni er alltaf opið frá 8.00 -16.00 ef fólk langar í kaffisopa og að kíkja í dagblöðin. Skipulagt félagsstarf, samkvæmt stundartöflu, er komið í sumarfrí fyrir utan nokkra „bridsara“ sem láta enga farfugla stoppa sig í spilagleðinni og handavinnukonur sem ætla að hittast áfram á þriðjudögum e.h., ef sólin spillir ekki fyrir, svo það er um að gera að kíkja við og athuga gang mála. Það stendur til að hafa grill og harmonikkuball á Hafnardögum, en meira um það seinna. Góðar sumarkveðjur sendum við ykkur öllum, stelpurnar á 9-unni

Merki FEBÖ

Ályktun samþykkt á aðalfundi FEBÖ

Aðalfundur félagsins var haldinn laugardaginn 11. febrúar sl. þar fóru fram venjuleg aðalfundarstörf, kosið var í nefndir og nýr formaður kjörinn Sigurður Bjarnason einnig kemur Ragnheiður Guðmundsdóttir ný inn í stjórn. Ásberg Lárensínusson lét af störfum sem formaður og Bjarni Valdimarsson gekk úr stjórn. Eftirfarandi ályktun var samþykkt á aðalfundi: „Aðalfundur beinir því til bæjarstjórnar Ölfus, að ganga nú þegar eftir því að unnt sé að auka heimahjúkrun og koma á akstursþjónustu fyrir eldri borgara sveitarfélagsins. Þá minnir aðalfundur einnig á samning sem undirritaður var af heilbrigðisráðherra og bæjarstjóra Ölfus þar sem lagður var grunnur að sérstöku fjárframlagi til að…

Fréttir af Níunni í upphafi árs 2017

Félagsstarfið á Níunni er hafið að nýju eftir jól og áramót. Leshópurinn hittist að venju á mánudögum kl. 13.00 og er upplagt fyrir þá sem hafa yndi af lestri góðra bóka að mæta, lesa saman og ræða málin. Þeir sem hafa áhuga á að skera út í tré geta mætt á fimmtudagmorgnum kl. 10.00. Þar kemur fólk saman og sker út; lærir handtökin hvert af örðu, fær hugmyndir og nýtur þess að vera saman. Ef einhver hefur áhuga að prófa þá eru hægt að fá lánaða hnífa á Níunni. Kortagerðin er á sínum stað á fimmtudögum kl. 13.00. Tækifæriskortin…

Þorrablót 2017

Þorrablót Félags eldri borgara í Ölfusi var haldið á bónadag 20. febrúar í sal Níunnar. Viðgerðir og endurbætur hafa staðið yfir á gólfinu í salnum síðan 3. janúar og var kappkostað við að ljúka verkinu fyrir blótið. Sigrún Theódórsdóttir forstöðumaður vígði nýtt hljóðkerfi en hún var veislustjóri að venju. Þorramaturinn kom frá Kjarnafæði sem Beata og Sigga sáu um að matreiða. Séra Baldur Kristjánsson talaði um þorrann hér áður fyrr og var skemmtilegur að vanda. Annað veifið stóðu gestir upp og sungu saman; að sjálfsögðu minni kvenna og minni karla. Einhver metingur var, hvor hópurinn hefði kyrjað hærra. Alltént…

Fréttir af Níunni 2. des. 2016

Vetrarstarfið á Níunni hefur að mestu verið hefðbundið en leikfimi undir stjórn Hildigunnar sjúkraþjálfara er þó ný af nálinni. Leikfimiæfingarnar þykja mjög góðar og gárungar segja; að nú sé fólk farið að geta klippt á sér táneglur og pússað hælana eftir að hafa stundað leikfimina það sem af er vetri enda er aðsóknin mikil.Boccia hópurinn fór á Eyrarbakka að heimsækja Boccia hópinn þar, þann 21. nóvember. Hópurinn vígði nýju bolina sína og var svona sallafínn í þeim.Í byrjun nóvembermánaðar var haldið konukvöld á Níunni og var salurinn fullur af konum á öllum aldri. Talið er að þarna hafi verið slegið met í aðsókn – og konurnar skemmtu sér ljómandi vel.Jólabasar var haldinn laugardaginn 19. nóvember á Níunni og var mikið af fallegu handverki til sölu og sannkölluð kaffihúsastemning - með vöfflum, heitu súkkulaði og að sjálfsögðu var jólatónlist leikin.Félagsvist hefur verð spiluð vikulega í haust, á hverjum mánudegi, og er eitt kvöld eftir á þessu ári, mánudag 4. des. kl. 20.Jólabingó verður haldið á Níunni þann 12. desember kl. 20. Allri eru velkomnir; alltaf gaman að hittast á aðventunni og spila bingó og ekki skemmir að eiga kannski von á vinningi!Sönghópurinn Tónar og Trix ætar að vera með jólatónleika í Versölum, Ráðhúsi Ölfus, þriðjudaginn 13. des. kl. 20.Nemendur tónlistarskólans ætla að koma á Níuna, miðvikudaginn 14. desember kl. 15.30, og spila fyrir gesti og gangandi. Allir velkomnir.Það er alltaf rjúkandi kaffi á boðstólnum á Níunni og hver veit nema að jólasmákökur verði í skálum á aðventunni og það væri sannarlega gaman að sjá sem flesta reka inn nefið.